Svæða og viðbragðsmeðferð / SOV meðferð

SOV meðferð er samofin úr tveimur ævagömlum meðferðarformum: svæðameðferð og viðbragðsmeðferð.

Svæðameðferð byggir á því að hið stóra endurspeglist í því smáa og hægt sé að meðhöndla hið stóra, þ.e. líkamann, í gegnum hið smáa.

Myndrista frá tímum forn Egypta sýnir tvo menn veita öðrum tveim handa- og fótanudd. Einnig eru til yfir fimm þúsund ára heimildir í Kína og Indlandi um þrýstinudd meðferðir til lækninga Munnlegar sagnir frá indjánum Ameríku segja frá meðferð/nuddi á fætur til lækninga.

Þessi þekking týndist að mestu þar til á 19. – 20. öld.

Sá sem telst upphafsmaður kenningarinnar um svæðaskiptingu líkamans og endurspeglun hans á fótum er bandarískur læknir, Dr. William Fitzgerald, sem kom fram með þessa kenningu í upphafi 20. aldar.

Þar er líkamanum skipt kerfisbundið í ákveðin svæði, þau eru síðan kortlögð á fótum sem áhrifasvæði. Sérstakri nuddtækni, þrýstinuddi, er síðan beitt á þessi svæði og með því næst fram örvun eða slökun á tilteknum stöðum í líkamanum. Sama gildir um hendur, allur líkaminn á sér áhrifasvæði á höndum. Eugine Ingham sjúkraþjálfari vann með Dr. Fitzgerald og á mikinn þátt í þróun svæðameðferðar. Seinna kom Hanne Marquardt þýsk hjúkrunarkona og hélt áfram vinnu við að rannsaka áhrifamátt meðferðarinnar og er höfundur bókarinnar Svæðameðferðin sem hefur verið þýdd á íslensku. Einnig má nefna dr. Martine Faure sem skrifar bókina Total reflexology.

Svæðameðferð er afar árangursrík við að ná fram slökun og vellíðan, hún eykur orkuflæði líkamans og styrkir hann til sjálfshjálpar. Hún getur verið verkjastillandi, örvað losun úrgangsefna, örvað starfsemi innkirtla, aukið blóðflæði til líffæra og losað um spennu. Margir ná djúpri slökun sem styrkir sjálfsheilunarmátt líkamans og auðveldar allan bata. Hún er virk aðferð til heilsubótar, til sjálfshjálpar og til að hjálpa öðrum til bættrar heilsu.

Viðbragðsmeðferð byggir á því að um líkamann streymi orka í samfelldri hringrás eftir ákveðnum farvegi, orkubrautum. Kínverskar nálastungulækningar byggjast á þessari kenningu. Orkan sem við köllum lífsorku, en Kínverjar kí, er alltumlykandi, gegnumstreymir allt og nóg er til af henni í heiminum. Lifandi verur hafa hæfileikann til að nota hana hver á sinn sérstaka hátt og ef við erum heilbrigð þá streymir hún án hindrana um líkamann allt okkar líf.

Ef hindranir hafa myndast er hægt að losa um þær með þrýstingi á punkta á orkubrautunum, ásamt hvetjandi eða letjandi orkubrautastrokum. Þannig er viðbragðsmeðferð notuð til að hafa markviss afmörkuð áhrif á orkukerfi líkamans sem skilar sér í því að verkir minnka, spenna róast, líffærastarfsemi styrkist og tilfinning fyrir vellíðan og heilbrigði eykst. Árangursríkt er að tengja og nota þessi meðferðarform saman.

SOV meðferð er markviss og heilsumiðuð meðhöndlun.

Hún virðist alltaf stuðla að því að koma jafnvægi á líkama og sál.