Lög og siðareglur

Lög sambands svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi

1.grein:
Nafn félagsins er SAMBAND SVÆÐA- OG VIÐBRAGÐSFRÆÐINGA Á ÍSLANDI, (SSOVÍ). Á ensku: The Icelandic Zonetherapy/Reflexology Association, Félagssvæði er allt landið, heimili og varnarþing á Akureyri.
2.grein:
Fullgildir félagsmenn eru þeir sem lokið hafa námi í svæða- og viðbragðsmeðferð við Svæða- og viðbragðsmeðferðarskóla Íslands eða sambærilegu námi. Aukaaðild án atkvæðisréttar hafa þeir sem lokið hafa námi í svæðameðferð og nemendur skólanns. Skráður græðari í svæða- og viðbragðsmeðferð sem hefur tekið framhaldsnám frá sama skóla í öðrum meðferðum s.s líkamsmeðferð, höfuðnuddi o.s.frv. er einnig skráður græðari í þeim eða þeirri meðferð. Hafi félagi ekki greitt félagsgjald í 2 ár dettur hann af félagaskrá.
3.grein:
Tilgangur félagsins er að vinna að framgangi á svæða- og viðbragðsmeðferð í samfélaginu og sameina í félaginu það fólk sem starfar við svæða- og viðbragðsmeðferð, ásamt því að auka og viðhalda faglegri þekkingu félagsmanna.
4.grein:
Allir fullgildir félagar skuldbinda sig til að starfa eftir samþykktum og siðareglum SSOVÍ og hlýta þeim í starfi sínu. Víki félagsmaður frá þeirri skuldbindingu getur hann átt von á áminningu eða brottvikningu úr SSOVÍ. Stjórn SSOVÍ metur brot og viðurlög hverju sinni en félagsmaður getur vísað máli sínu til siðanefndar sé hann ekki sáttur
5.grein:
Kosnir skulu tenglar á þeim stöðum þar sem grundvöllur er fyrir að hittast, til dæmis í öllum landsfjórðungum, þeir skulu standa fyrir nuddfundum, vera í nánu samstarfi við stjórn SSOVÍ og fárhagslega sjálfstæðir.
6.grein:
Stjórn félagsins skal skipuð 3 fullgildum félagsmönnum. Formaðu skal kosinn til þriggja ára í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Kosinn skal einn skoðunarmaður reikninga félagsins og einn vara skoðunarmaður til eins árs.
7.grein:
Aðalfund skal halda fyrir maílok ár hvert. Til hans skal boða með tölvupósti með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Dagskrá fundarins skal vera:

  1. Kosning fundarstjóra og ritara aðalfundar
  2. Skýrsla stjórnar
  3. Lagður fram endurskoðaður ársreikningur félagsins til afgreiðslu.
  4. Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins ef um þær er að ræða
  5. Kosning formanns
  6. Kosning meðstjórnenda og þriggja fulltrúa í siðanefnd SSOVÍ
  7. Kosning skoðunarmanns og varaskoðunarmanns reikninga félagsins
  8. Tillaga stjórnar um árstillag félagsmanna næsta reikningsár
  9. Önnur mál
8.grein:
Samband Svæða- og viðbragðsfræðinga er ekki rekið í hagnaðarskyni, heldur skal nota tekjur þess til að vinna að markmiðum félagsins. Árgjald félagsins er ákveðið á aðalfundi og greiða félagar með aukaaðild fullt gjald.
9.grein:
Milli aðalfunda hefur stjórnin með framkvæmdir fyrir sambandið að gera og er henni heimilt að fá aðra félagsmenn til starfa ef þörf krefur.
10.grein:
Félagar SSOVÍ skuldbinda sig til að reka ábyrga starfsemi og gefa skjólstæðingum allar nauðsynlegar upplýsingar er varða starfsemi þeirra og að nota heilsufarsskýrslu SSOVÍ og geyma hana í læstri hirslu og fara með hana sem trúnaðarmál.
11.grein:
Innan félagsins skal starfa siðanefnd. Hlutverk hennar er að fjalla um kærumál sem kunna að koma upp og skal hún hafa siðareglur SSOVÍ að leiðarljósi.
12.grein:
Kærumál og agareglur: Berist kæra til stjórnar SSOVÍ vegna framferðis félagsmanns gagnvart skjólstæðingi sínum, skal stjórn taka málið til meðferðar og kanna réttmæti þess. Allir málsaðilar skulu hafa rétt til að tala máli sínu og skulu allar niðurstöður vera skriflegar. Verði ekki fallið frá kæru að lokinni málsmeðferð stjórnar eða niðurstaða stjórnar ekki viðunandi geta málsaðilar skotið máli sínu til siðanefndar SSOVÍ sem skal afgreiða málið innan 30 daga frá því kæra berst. Siðanefnd tekur þá kæruna til meðferðar, þar á meðal málsmeðferð stjórnar og tekur endanlega ákvörðun sem ekki er hægt að áfrýja aftur. Viðurlög við brotum á þessum reglum eru áminning eða brottvikning úr SSOVÍ. Stjórn SSOVÍ mun meta brot og viðurlög hverju sinni. Félagar SSOVÍ lúta siðareglum Sambands svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi.

Samþykkt á aðalfundi SSOVÍ 17. mars 2022

Siðareglur sambands svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi

1. SOV
fræðingur er bundinn þagnarheiti gagnvart skjólstæðingi sínum. Þagnarskylda helst ævilangt. Fullur trúnaður og virðing skal ríkja milli skjólstæðings og meðferðaraðila, óháð þjóðerni, kynþætti, aldri, trúarbrögðum, litarhætti, kynferði, stjórnmálaskoðunum, siðferðilegum skoðunum og þjóðfélagsstöðu skjólstæðings.
2. SOV
fræðingur skal fara með allar persónulegar upplýsingar, sem snerta skjólstæðinginn, sem trúnaðarmál. Ef skjólstæðingur er yngri en 18 ára skal samþykki foreldra/forráðamanns fyrir meðferðinni liggja fyrir. Ef um er að ræða ungt barn er nauðsynlegt að foreldri/forráðamaður sé viðstaddur meðferðina. Viðmiðunaraldur fer eftir einstaklingum og skal vera samkomulagsatriði milli foreldra/forráðamanns og meðferðaraðila. Börn eru ætíð í meðferð á ábyrgð foreldra sinna.
3. SOV
fræðingur leitast við að gera ekkert það, sem til vanvirðu má teljast gagnvart sínu félagi eða skjólstæðingi, hvorki í ræðu né riti, né nokkuð annað sem rýrt geti álit almennings á starfi hans eða skert hagsmuni stéttarinnar.
4. SOV
fræðingi ber ekki skylda til að veita hverjum þeim sem til hans kemur meðferð. Meðferðaraðili sem er siðferðilega meðvitaður þekkir glöggt takmörk ábyrgðar sinnar. Hann veit hvað þarf til að vinna gott meðferðarstarf en taka samt tillit til eigin velferðar.
5. SOV
fræðingur skal hafa að markmiði að leitast við að bæta líðan fólks og efla heilbrigði þess. Hann skal gæta ýtrasta hreinlætis og snyrtimennsku í starfi sínu.
6. SOV
fræðingur sjúkdómsgreinir ekki, lofar ekki lækningu, né reynir að hafa áhrif á læknismeðferðir sem skjólstæðingur hans er í og gefur skjólstæðingi allar nauðsynlegar upplýsingar er varða þá meðferð sem hann veitir.
7. SOV
fræðingi ber að færa sjúkraskýrslu um hvern skjólstæðing.
8. SOV
fræðingur skal jafnan sýna drengskap og virðingu í samskiptum sínum við starfsfélaga og aðra meðferðaraðila og skuldbindur sig til að reka ábyrga starfsemi.

Samþykktar á aðalfundi SSOVÍ 2007