Um

Samband svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi, SSOVÍ kt. 681197-2579, var stofnað 28. nóvember 1997. Það er fagfélag þeirra sem lokið hafa námi í svæða- og viðbragðsmeðferð við Svæða- og viðbragðsmeðferðarskóla Íslands. Aukaaðild hafa þeir sem lokið hafa námi í svæðameðferð og nemendur skólans, sbr. 2. grein laga SSOVÍ.

Samband svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi er aðili að Bandalagi íslenskra græðara, BÍG, og geta fullgildir félagar SSOVÍ sótt um að vera skráðir græðarar og mega þá veita heilsutengda þjónustu skv. lögum um græðara sem samþykkt voru á Alþingi í maí 2005. Sjá www.big.is.

Hverjir geta notfært sér SOV meðferð?

Allir geta það

Farir þú í SOV meðferð þá þarf SOV fræðingurinn að vita hvað hrjáir, hversu lengi það hefur staðið og fá ýmsar aðrar upplýsingar sem hjálpa honum að gera meðferðaráætlun. Hversu vel tekst til getur farið eftir þessum upplýsingum og ef um langvarandi álag er að ræða getur þú upplifað þreytutímabil eftir fyrstu meðferðirnar og gamlir kvillar geta jafnvel komið uppá yfirborðið.

Uppbygging og hreinsun fer af stað í líkamanum og ef hann er í slæmu ástandi er nauðsynlegt að hvílast vel og minnka vinnuálag meðan þreytutímabilið gengur yfir. Ef líkamaástand þitt er gott og aðeins eitthvað afmarkað sem hrjáir, breytist líðanin oft til batnaðar eftir einn til tvo meðferðartíma. Eins og allar heildrænar heilsubótarmeðferðir sem miða að því að vekja eigin lækningamátt líkamans til dáða, þá þarf stundum þolinmæði þar til bati næst. Ef þú ert í læknismeðferð þá þarf læknir að samþykkja meðferðina, það er afar mikilvægt. SOV fræðingar eru útskrifaðir frá Svæða- og viðbragðsmeðferðarskóla Íslands. Þeir eru með u.þ.b. 2ja ára nám að baki.